Hugmyndasmiðir
Svava Björk, annar stofnandi RATA hefur í samvinnu við öflugt teymi keyrt af stað verkefnið Hugmyndasmiðir. Verkefninu er ætlað að fræða krakka um nýsköpun með því að draga fram fyrirmyndir frumkvöðla af öllum kynjum, aldri, sviðum og landshlutum Íslands. Markmið verkefnisins er að efla sköpunargleði og frumkvöðlafærni krakka og hvetja þau til að skapa lausnir fyrir framtíðina.
Verkefnið varð til á vinnustofu um vistkerfi nýsköpunar á landsbyggðunum á Rifi í ágúst 2021.
“Það áttu sér stað mjög góðar umræður um vistkerfið og hvað þyrfti að gera til að styðja við frumkvöðla sem búa fyrir utan höfuðborgarsvæðið sem oft er talinn suðupottur nýsköpunarumhverfisins. Við fórum svo langt í umræðunum að ræða um sjálfsmynd ungu kynslóðarinnar og fundum að það þyrfti á einhvern hátt að efla frumkvöðulinn frá unga aldri, byrja strax að ýta undir skapandi og lausnamiðaða hugsun, sama hvar hann býr. Út frá þessum vangaveltum og umræðu um stöðu menntunnar í nýsköpun í grunnskólum varð verkefnið Hugmyndasmiðir til. Við eigum ótrúlega flottar fyrirmyndir frumkvöðla um allt land og fyrsta skrefið er að draga þær fram í dagsljósið og setja fram á skemmtilegum vettvangi. Næsta skref verður svo að efla krakkana í gegnum fræðslu, verkefnavinnu og hugmyndasamkeppni”
- Svava Björk Ólafsdóttir -
Teymið á bakvið hugmyndasmiði samanstendur af Svövu sem er sérfræðingur í nýsköpun, Ninnu Þórarinsdóttur barnamenningar hönnuði og Evu Rún Þorgeirsdóttur rithöfundi.
Í sumar heimsækir teymið átta frumkvöðla og fær innsýn inn í þeirra störf og í framhaldinu verður bókin skrifuð og myndskreytt og vefsíðan vakin til lífsins. Útgáfufélagið Bókabeitan mun gefa bókina út og stefnt er að útgáfuhófi í byrjun árs 2023.
Ef þú vilt vita meira um HUGMYNDASMIÐI og styðja við vegferðina bendum við á Karolina Fund söfnun HÉR.
Lifi sköpunargleðin!