Getum bara stjórnað því hvernig við bregðumst við

Þær Hafdís Huld Björnsdóttir og Svava Björk Ólafsdóttir stóðu báðar á krossgötum í lífinu í fyrrasumar og fóru að ganga saman á Úlfarsfellið í viku hverri.

„Í ágúst í fyrra vorum við báðar á ákveðnum krossgötum í lífinu; höfðum sagt upp vinnunni og fundum að við vildum einhvern veginn komast út úr hamstrahjólinu og líta inn á við. Við höfðum báðar upplifað mikla streitu í kringum vinnuna sem hafði bitnað á okkur sjálfum og einkalífinu.“

Þær áttuðu sig á að þær langaði báðar að efla einstaklinga og teymi og aðstoða fólk við að skína. Nú eru þær búnar að stofna RATA til að halda utan um reksturinn og segjast ætla að nýta árið 2020 til að þróa lausnir sínar áfram.

Þær segja að í lok árs 2019 hafi þær báðar fundið að þær væru gott teymi og þær væru með eitthvað í höndunum sem væri þess virði að taka alla leið. „Galdurinn að okkar mati er sá að við erum í grunninn mjög ólíkar og með fjölbreyttan bakgrunn,“ segir Svava. „Eins höfum við vanið okkur á að eiga mjög hreinskilin og opin samskipti en þetta tvennt er lykilatriði í því að skapa gott teymi og eykur líkur á árangri. Við erum því búnar að stofna RATA til að halda utan um reksturinn og ætlum að nýta árið 2020 til að þróa lausnirnar okkar áfram og sjá hvar við getum nýtt kraftana okkar.“

Staldrað við

Þær Svava og Hafdís segja markþjálfun að sínu mati vera frábæra leið til að staldra við, skoða hvað það er sem skiptir mann máli í lífinu og finna hvernig maður getur ratað á réttan stað. Hvernig maður nái að skína á sínu sviði og forgangsraða í lífinu.

„Það er oft stórmerkilegt að skoða hvaða ástæður liggja á bak við ákvarðanir sem maður tekur; þá er best að fara í innsta kjarna og skoða vel hvað raunverulega liggur þar á bak við,“ segir Hafdís. „Hvaða gildi maður hefur í lífinu og hvernig maður nærir sjálfan sig í daglegu lífi. Við getum ekki stjórnað því hvaða áskoranir verða á vegi okkar í lífinu en við getum hins vegar stjórnað því hvernig við bregðumst við þeim. Markþjálfun hjálpar okkur að ákveða hvernig við ætlum að bregðast við og tækla áskoranirnar.“

Hægt er að lesa allt viðtalið við Hafdísi og Svövu í heild sinni í 6 tbl. 82. árg af Vikunni. Þar gefa þær líka góð ráð fyrir markmiðasetningnu.

Mynd / Hallur Karlsson

Previous
Previous

Að rata í frumkvöðlaumhverfinu